Með Griðungum
stærst er þetta stríð af öllum
standa þeir frá sjó að fjöllum
saman völdum sigraköllum
sundruð öll sem eitt við föllum
lýkur stríði, lokast hringur
lítill fugl með trega syngur
tíminn niður stafnum stingur
stendur vörðinn ferfætlingur
fugl í norðri
dreki í austri
jötunn í suðri
griðungur í vestri
fjórða sinnið og fullreynt loks
færðist lokastyrjöldin frá heiði til vogs
báru hvor aðra á banaspjót
báðar fylkingar, dýrt var það blót
sótt var af hafi og sótt var af fjöllum
sótt var úr lofti úr áttum öllum
í húfi var landið og heiður þjóðar
hópuðust kringum okkur vættir góðar
griðungur í sjónum syndir
sækja á hann ljótar myndir
rífa klær og tæta tennur
týnast líf er holdið brennur
dugar meðan dagar líða
dreki, fugl og jötunn bíða
látrabjörgin lemja öldur
laskað sverð og brotinn skjöldur
þórunn barðist uns þrótturinn hvarf
þarna hún kláraði ævistarf
studdu við bak hennar staðfastur vættir
svo standa á frjálsri grundu þú mættir
ég bið að þú hafir í brjósti þér myndir
hún bjargaði okkur og afmáði syndir
gleymdu því ekki hvað gerðist, því sprundið
er glatað og hvergi í ljóðstafi bundið
griðungur og gömul kona
gæta strandar, lífs og vona
bogastrengur bítur fingur
blóðið fossar, örin stingur
barðist þorunn síðsta sinnið
sigur grófst í þjóðarminnið
herkvaðningin herðir trúna
hringnum verður lokað núna
sveitin þagnar, sverðin liggja ber
svefninn langi bíður eftir þér
klakabönd og kynjamyndir, kaldur vindur hvín
myrkrið dansar, máninn á þig skín
vættir gráta, vetur færist nær
vindur kólnar meðan syrgja þær
frystir allt og fjallið litast fannhvítt eins og lín
myndast skuggar, máninn á þig skín
þórunn auðna, þakkarskuldin er
þeirra sem að lifa, sorgin sker
heljarköld í húminu er hinsta stundin þín
meðan deyrðu, máninn á þig skín